Bakgrunnur








Velkomin(n) á
JonDan.is.

Notaðu gemsann
til að vafra
um vefinn.
Höfundur er meiraprófsbifreiðastjóri að mennt og á að baki glæsta framtíð í þeirri atvinnugrein.

Hann hefur ennfremur verið hákarlasjómaður, kennari, kokkur á togara, skólastjóri, svínafitubræðslumaður, blaðamaður, ritstjóri, sauðamaður, bókavörður, strætóbílstjóri, þýðandi, bóndi, framkvæmdastjóri, auglýsingasali, múrari og leigubílstjóri svo nokkuð sé nefnt.

Aðeins einu sinni hefur höfundinum borist atvinnuuppsögn. Hún var munnleg og með þriggja daga eftirvara.

Höfundurinn hefur nú loksins náð tilskildum aldri til að geta lokað ferilskránni með titlinum „Opinber starfsmaður án vinnuskyldu".

Jón Daníelsson
Gráskeggur úr Hrútafirði
Senda á fésbók
Unglingavinna

Tæplega 15 ára gamall sonur minn sótti ekki um unglingavinnu hjá Reykjavíkurborg í sumar og vildi heldur ekki vinna sér inn 20 þúsund á mánuði með því að bera úr Fréttablaðið. Hann taldi sig eiga nóg inni á debetkortinu sínu og sagðist fremur vilja einbeita sér að fótboltanum ?full time?. Þetta varð til þess að ég rifjaði upp ?unglingavinnuna? mína sumarið sem ég var 14 ára.

Þetta var sumarið 1963 og eftir að hafa ræktað tún, byggt fjárhús og fjós yfir búpeninginn var nú þar komið í uppbyggingaráætlun föður míns að hann vildi byggja íbúðarhús. Ég fermdist þetta vor og var þar með kominn í fullorðinna manna tölu. Sjálfur merkti ég ekki stóran mun frá fyrri sumrum, nema ef vera skyldi að mér var nú fullkomlega treyst fyrir dráttarvélum, jafnvel við erfiðustu aðstæður.

Íbúðarhús er nokkuð flóknari framkvæmd en gripahús eða hlöður. Við hófumst handa strax um vorið. Milli þess sem við pabbi tókum á móti lömbum, komum þeim á spena og stíuðum af þær lambær sem af ýmsum ástæðum þurfti að stía af, strengdum við snúrur og tókum rétt horn í grunninum. Svo var slegið upp og byrjað að steypa.

Eftir sauðburð þurfti að marka lömb og síðan að rýja ærnar og reka á fjall. Við bárum líka á tún og innan tíðar var komið að heyskap. En alltaf var hver laus stund gripin í húsbygginguna.

Ég hygg að það láti nærri að ég hafi þetta sumar byrjað vinnudaginn milli átta og níu á morgnana. Ef ég man rétt unnum við sjaldnast lengur en til ellefu á kvöldin. Og eftir megni vildi pabbi gefa frí á sunnudögum. Sjálfur gat hann þó yfirleitt ekki stillt sig um að þoka byggingunni áfram og samvisku minnar vegna gat ég ekki setið alveg hjá. Kannski langaði mig að liggja í leti og lesa bók, en áður en ég vissi af var ég kominn út til að gá að hvað pabbi væri að fást við. Iðulega var hann að bisast aleinn við eitthvað sem í rauninni þurfti tvo til.

Suma sunnudaga þurfti líka að bjarga heyi. Þá var unnið svo lengi sem þurfti. Þegar verkinu var lokið klukkan 2, 3 eða 4 um nóttina, sagði pabbi ævinlega sama brandarann: ?Jæja piltar. Nú sofum við út í fyrramálið. Hreyfum okkur ekki fyrir sex.? Einhvern tíma spurði ég hann um þennan brandara og þá kom í ljós að upphaflega var þetta ekki brandari, heldur hafði pabbi þetta eftir bónda sem hafði raunverulega talið sig vera að verðlauna vinnumenn sína fyrir hálfri eða kannski heilli öld.

Séra Þorgrímur prestur, yngsti bróðir minn (sem sumarið 1963 var að þroskast í móðurkviði), sagði þessa skemmtisögu af pabba í útfararræðu sinni. Ég minnist þess reyndar ekki öðru sinni að hafa heyrt hlátur glymja í kirkju við jarðarför, hvorki fyrr né síðar. En þetta var vel til fundið hjá Þorgrími og sannar líka fyrir mér að pabbi hélt áfram þessum staðalfrasa sínum löngu eftir að ég var farinn að heiman.

Vinnudagurinn var langur. En verkin voru afar miserfið. Skemmtilegast þótti mér að sitja á dráttarvél og slá, rifja, múga, ýta eða moka fullþurrkuðu heyi upp á heyvagn eða vörubílspall. Ilmur af nýslegnu heyi, hálfþurrkuðu heyi eða fullþurrkaðri töðu er óviðjafnanlegur.

Erfiðast ? og um leið trúlega leiðinlegast ? var að keyra hjólbörur fullar af steinsteypu upp á efri hæð hússins. Þetta var gert þannig að frá jörðu og upp á steypumótin (um 2,5 metra hæð) var lögð skábraut í tvennu lagi, líkt og stigi með stigapalli milli hæða. Utanvert beggja vegna voru negldir tréklossar til viðspyrnu fyrir fæturna, en í miðjunni var brautin rennislétt til að hjólbörurnar gætu runnið áfram án fyrirstöðu. Hallinn var hvorki mældur né reiknaður af neinum verkfræðingum, heldur gilti hér smiðsaugað eitt.

Neðri hluti brautarinnar var lengri, enda var hægt að taka gott tillhlaup áður en lagt var í hann. Efri hlutann þurfti maður hins vegar að fara á vöðvaaflinu einu saman. Eftir að upp var komið, þurfti svo ekki annað en að halda hjólbörunum í jafnvægi á vinnupallinum, þangað til komið var að þeim stað þar sem sturta skyldi í mótin, en það þurfti reyndar að gera af talsverðri nákvæmni, enda ekki vel séð að steypan færi fram hjá og þar með til spillis.

Steypudagar voru sérstakir dagar. Þá voru allir kallaðir til, sem vettlingi gátu valdið. Nágrannar komu allir sem einn. Allir sem til náðist voru ráðnir í vinnu á steypudögum. En þó ekki konur. Kvenfólkið var inni í bæ og átti þar trúlega ekki náðugan dag. Inga systir mín varð 10 ára þetta sumar. Ég þarf að spyrja hana við tækifæri hvernig hún, mamma og Sigga frænka hafi eiginlega farið að því að matreiða kjöt og kartöflur ofan í 20 banhungraða karlmenn með einungis eina eldavél og fáeina litla potta til ráðstöfunar.

Ef ég man rétt, var ég þó aldrei látinn keyra steypuhjólbörur upp rampinn allan daginn. A.m.k. tvö önnur hlutverk voru í boði. Í samanburði við hjólbörurnar mátti það heita hvíld að taka sementspoka úr stæðunni, skera hann í miðju og hella úr honum í hrærivélina. Síðast en ekki síst þurfti svo að setja réttan skammt af möl í hrærivélina. Þetta var nánast eins og að vera í fríi ? þó að því frátöldu að maður þurfti að vera nákvæmur, bæði taka nákvæmlega rétt magn í skófluna (með því keyra traktorinn af nákvæmlega hæfilegu afli og stinga skóflunni nákvæmlega á réttan stað í malarhaugnum) og svo þurfti auðvitað að stöðva á hárnákvæmlega réttum stað til að mölin færi öll í kjaftinn á hrærivélinni, þegar sturtað var, og ekki arða fram hjá.

Fjórði verkhlutinn var svo auðvitað að ausa vatni í hrærivélina. Stöku sinnum fékk ég að gera það. Þannig var mér með ýmsu móti hlíft, enda var, ég eins og gömlu mennirnir sögðu, ?ekki nema óharðnað unglingskvikindi?.

Þannig leið fermingarsumarið mitt.

Hálfpartinn þótti mér ástæða til að segja ungum syni mínum þessa sögu fyrir fáeinum dögum. Hann hlustaði furðu þolinmóður og sagði svo:

?Þetta er ekki svona núna, pabbi. Fornöldin er löngu liðin.?














X
Hafðu samband

Mitt nafn


Mitt netfang


Fyrirspurn




Talan í myndinni hér að ofan er





X
Senda


Nauðsynlegt er að fylla út reiti með feitletruðum titli.
Netfang móttakanda


Mitt nafn


Mitt netfang


Athugasemd / efni:





X
Fréttabréf

Nafn


Netfang




Fréttabréf í boði

Engin fréttabréf í boði.






Talan í myndinni hér að ofan er