Bakgrunnur
Velkomin(n) á
JonDan.is
.
Notaðu gemsann
til að vafra
um vefinn.
Höfundur er meiraprófsbifreiðastjóri að mennt og á að baki glæsta framtíð í þeirri atvinnugrein.
Hann hefur ennfremur verið hákarlasjómaður, kennari, kokkur á togara, skólastjóri, svínafitubræðslumaður, blaðamaður, ritstjóri, sauðamaður, bókavörður, strætóbílstjóri, þýðandi, bóndi, framkvæmdastjóri, auglýsingasali, múrari og leigubílstjóri svo nokkuð sé nefnt.
Aðeins einu sinni hefur höfundinum borist atvinnuuppsögn. Hún var munnleg og með þriggja daga eftirvara.
Höfundurinn hefur nú loksins náð tilskildum aldri til að geta lokað ferilskránni með titlinum „Opinber starfsmaður án vinnuskyldu".
JonDan.is
Blogg
Greinasafn
Myndir
Hver er maðurinn
Fyrir mitt minni
Minningabrot
Af öðrum toga
Fjölskyldufréttir/Fami...
Jón Daníelsson
Gráskeggur úr Hrútafirði
des.
31
2010
Stjórnmál
Ár að baki og annað framundan
2010 hefur verið mörgum Íslendingum erfitt, ekkert síður en árið 2009 og afturpartur ársins 2008. 2011 verður líka fyrirsjáanlega erfitt ár, en vonandi verður það samt árið sem okkur byrjar að þoka áleiðis. Þannig marka flugeldarnarnir á miðnætti annað kvöld, kannski tímamót í tvennum skilningi.
Það hefur mikið mætt á þessari blessaðri ríkisstjórn og þá sérstaklega forystumönnunum, Jóhönnu og Steingrími. Sumir vilja finna þeim það til foráttu að hafa verið lengi í pólitík – vilja fremur eitthvað nýtt og ferskt. Mér finnst þvert móti nánast glópalán að við skulum eiga þetta fólk að.
Vammir og skammir
Þeim er núið því um nasir að hafa snúið baki við hugsjónum sínum. Sjónvarpsstöðvar keppast við að sýna Steingrím andmæla aðkomu AGS haustið 2008. Þá gleymist, að þegar hann skipti um hlutverk snemma árs 2009, stóð hann frammi fyrir orðnum hlut. AGS var þegar mættur á svæðið og samstarfsáætlun undirrituð.
Það er ekki auðvelt hlutskipti að þurfa að framfylgja því sem maður vildi einna síst. En hér er tvennt að athuga: Steingrími (og Jóhönnu) hefur tekist að hafa veruleg áhrif á samstarfsáætlunina við AGS. Auk langrar reynslu er Steingrímur greinilega aldeilis óvenjulega skynsamur maður. Öfugt við svo marga háværa bloggara og mótmælendur, sættir hann sig við það sem hann fær ekki breytt, en fer aftur á móti hamförum við að breyta því, sem þrátt fyrir allt er í hans valdi að breyta.
Hið sama má segja um Jóhönnu. Skrefin úr félagsmálaráðuneytinu yfir í forsætisráðuneytið voru henni örugglega ekki auðveld. Í 30 ár hafði hún barist fyrir auknum ríkisútgjöldum til velferðarmála. Nú neyddist hún til að taka að sér verkstjórn við niðurskurð ríkisútgjalda. Og sá niðurskurður hlaut því miður líka að bitna á þeim samfélagshópum sem alltaf hafa verið henni kærastir.
Hvorki Jóhanna né Steingrímur þurftu að taka þetta að sér. Eftir 30 ára þingsetu gátu þau auðveldlega sagt: Nei takk! Þetta heita helvíti geri ég ekki. Nú fer ég heim. Bless.
En það gerðu þau ekki. Þau gengust undir okið, þótt það þýddi að þau þyrftu að bæði nánast að snúa baki við almennum lífsskoðunum sínum og reka ríkisstjórnarstefnu sem við myndum almennt kalla hægri sinnaða. Hvers vegna?
Að skipta um hlutverk
Í mínum huga er svarið einfalt. Þau sáu í hendi sér að með því að taka að sér þetta hlutverk, gætu þau dreift byrðinni á sanngjarnari hátt en hefðbundin hægri stjórn hefði gert. Og það hefur þeim tekist. Hvernig halda menn að byrðunum hefði verið skipt ef hægri menn hefðu fengið að ráða þessari „hægri stjórn“, sem hún í rauninni neyðist til að vera, þótt vinstri stjórn sé kölluð?
Hvort heldur menn vilja kalla ríkisstjórn Jóhönnu og Steingríms hægri eða vinstri stjórn, þá er ljóst að henni hafa orðið á ýmisleg mistök. Tvennt stendur upp úr: Þau greiðslu- og skuldajöfnunarúrræði sem gripið var til í upphafi byggðust einkum á norrænum fyrirmyndum og miðuðust þar með við einhvers konar „normal-ástand“ og gögnuðust fyrir bragðið sáralítið. Hins vegar er svo IceSave-deilan þar sem ljóst má vera að menn hefðu strax í upphafi átt að fá „erlendan sérfræðing“ til forystu, hafa stjórnarandstöðuna með í ráðum og þó umfram allt tefja málið, vegna þess að í rauninni mátti kannski vera ljóst strax í upphafi að tíminn myndi vinna með okkur.
En þetta er auðvelt að sjá eftir á. Það hvarlar ekki að mér að Jóhanna og Steingrímur hafi vísvitandi klúðrað einu né neinu.
Ótrúlega margt gott
Mér finnst alveg skaðlaust að nefna hitt líka, að þessi ríkisstjórn hefur gert margt gott. Margvíslegar skattahækkanir nefni ég fyrst. Auðlegðarskattur og hækkun fjármagnstekjuskatts ber hæst. Þetta eru skattar á hina ríku. Þrepaskipting tekjuskatts er líka mikilvæg. Með henni er láglaunafólki hlíft, en meira tekið af þeim sem geta borgað.
Það er sanngjarnt.
Og núna, undir árslok, komu loksins almennar aðgerðir sem ættu að duga. Samningar við banka um uppgjör skulda bæði heimila og fyrirtækja. Líka gengislánalög (sem ég efast reyndar um að standist gagnvart stjórnarskrá). Ný gjaldþrotalög má líka nefna, en þau gjörbreyta aðstæðum þeirra sem á annað borð verður ekki hægt að bjarga.
Vissulega hefur þetta allt saman tekið langan tíma. Stjórninni til afbötunar má þó líklega segja að staðreyndir hafi ekki legið á borðinu fyrr en nú. Svo rækilega voru stóru bankarnir þrír rændir innan frá, að jafnvel Excel sjálfur skilur það ekki til fulls fyrr en búið er að leita uppi nánast öll smáatriði og mata hann á þeim.
Ég held að reiðitímabili Íslendinga hafi lokið á þessu gamla ári. Við neyðumst til að sætta okkur við að þetta gerðist og lífskjör okkar flestra rýrnuðu. Sumir neyðast til að játa sig sigraða og fara í gjaldþrot. Flestir sleppa þó fyrir hornið, misvel auðvitað. En við höfum sennilega flest áttað okkur á því að það er þýðingarlaust að berja hausnum við steininn.
Sumu verður einfaldlega ekki breytt. Nú einbeitum við okkur að hinu – því sem við getum breytt.
Tækifærið er núna
Ég held að þessi áramót verði vendipunktur. Framundan eru margvísleg verkefni sem skapa atvinnu. Og reyndar held ég að Íslendingar þekki ekkert verra böl en atvinnuleysi.
Ég hef enga spádómsgáfu og sé ekki fyrir hvað gerast muni 2011. En mér þykir líklegt að nýi IceSave-samningurinn verði samþykktur, trúlega með hjásetu bæði Sjálfstæðis- og Framsóknarmanna á þingi.
Eftir það upphefst dálítið fjármagnsflæði til Íslands. Álver í Helguvík verður trúlega að veruleika. Orkan á Þeistareykjum verður líka virkjuð til einhverra nota. Hálfklárað íbúðarhúsnæði á suðvesturhorninu verður klárað og ýmist selt eða nýtt sem leiguíbúðir.
Allt þetta og miklu fleira skapar æ fleiri atvinnutækifæri. En misskilji mig nú enginn: Þetta gerist ekki allt á árinu 2011. Ég ætla samt að spá því að atvinnuleysi verði komið niður fyrir 5% fyrir næstu Alþingiskosningar – árið 2013.
Þegar hér er komið sögu er þessi pistill orðinn að heilu áramótaávarpi. Það var ekki ætlunin, en höldum samt áfram. Það verður nefnilega ekki skilið svo við þessi umhugsunarefni að ekki sé vikið að þeirri staðreynd að núverandi ríkisstjórn er í rauninni minnihlutastjórn. Þetta hefur mér verið ljóst lengi og snemmsumars skrifaði ég pistil um nauðsyn þess að taka Framsóknarflokkinn inn í ríkisstjórn.
Meirihlutastjórn
Þetta er nauðsynlegt vegna þess að það er einfaldlega of tímafrekt að „smala köttum“. Villikettirnir í VG eru ekki bara þrír – ekki bara Atli, Lilja og Ásmundur Einar. Villikettirnir eru a.m.k. 5 talsins. Guðfríður Lija er í fríi og Jón Bjarnason eiginlega líka. Um leið og Jón Bjarnason missir stólinn sinn, fer hann að ybba gogg. Jón Bjarnason er nefnilega einn þeirra stjórnmálamanna sem hafa ívið meiri áhuga á persónulegum frama en pólitískri hugsjón.
Það virðist nokkuð augljóst að Framsóknarflokkurinn komi inn. Að sjálfsögðu verður þá saminn nýr stjórnarsáttmáli, en hann verður ekki svo mjög frábrugðinn þeim sem fyrir er. Framsóknarmenn á þingi eru fæstir mjög andvígir núverandi stjórn – og stjórnarsáttmála.
Það má samt ekki gleymast að Framsóknarflokkurinn er sá flokkur sem hefur endurnýjað þinglið sitt mest. Merkilegasti nýliðinn er Eygló Harðardóttir sem hikar ekki við að tala um samvinnufélög – orð sem hefur verið sjálfsagt skammaryrði áratugum saman.
Aldeilis alveg hreint að ósekju.
Takk
Ég þakka öllum þeim sem nennt hafa að lesa misgáfulega pistla mína á árinu 2010. Ég hef ekki verið alveg hlutlaus, en ég hef reynt að vera alveg fullkomlega heiðarlegur.
Gleðilegt nýtt ár!
Jón Daníelsson
Til baka
Efst á síðu
1
Skrá athugasemd
1
des.
31
20:43
2010
-DJ-
Gleðilegt ár! :)
Tweet
X
Hafðu samband
Mitt nafn
*
Mitt netfang
*
*
Fyrirspurn
*
Talan í myndinni hér að ofan er
*
X
Senda
Nauðsynlegt er að fylla út reiti með feitletruðum titli.
Netfang móttakanda
Mitt nafn
Mitt netfang
Athugasemd / efni:
X
Fréttabréf
Nafn
Netfang
*
*
Skrá netfang
Afskrá netfang
Fréttabréf í boði
Engin fréttabréf í boði.
Talan í myndinni hér að ofan er
*
X
Nauðsynlegt er að fylla út reiti með feitletruðum titli.
Nafn
*
Netfang
Blogg / Vefsíða
Athugasemd
*
Talan í myndinni hér að ofan er
Skrá athugasemd