Bakgrunnur








Velkomin(n) á
JonDan.is.

Notaðu gemsann
til að vafra
um vefinn.
Höfundur er meiraprófsbifreiðastjóri að mennt og á að baki glæsta framtíð í þeirri atvinnugrein.

Hann hefur ennfremur verið hákarlasjómaður, kennari, kokkur á togara, skólastjóri, svínafitubræðslumaður, blaðamaður, ritstjóri, sauðamaður, bókavörður, strætóbílstjóri, þýðandi, bóndi, framkvæmdastjóri, auglýsingasali, múrari og leigubílstjóri svo nokkuð sé nefnt.

Aðeins einu sinni hefur höfundinum borist atvinnuuppsögn. Hún var munnleg og með þriggja daga eftirvara.

Höfundurinn hefur nú loksins náð tilskildum aldri til að geta lokað ferilskránni með titlinum „Opinber starfsmaður án vinnuskyldu".

Jón Daníelsson
Gráskeggur úr Hrútafirði
des.

18


2010
Almennt
Skáldsaga - svona til tilbreytingar
Gamall vinur minn leit inn hjá mér dag einn fyrir skömmu. Stoppaði eiginlega skammarlega stutt því við hittumst æ sjaldnar eftir því sem árin líða. En fyrir gamlan vinskap áritaði hann mér bók og lét hana liggja eftir hjá kaffibollanum.

Ég þarf reyndar að varast það að opna bækur. Fyrr en varir er ég kannski fastur í einhverri óskiljanlegri dularveröld. Og það sem verra er: Mér finnst eins og ég hafi alltaf átt þar heima. Þannig leið mér eftir að hafa lesið Sigurðar sögu fóts.

Til tilbreytingar blogga ég sem sagt ekki um pólitík í kvöld, heldur bara hugarheim Bjarna vinar míns Harðarsonar. Síst af öllu þykist ég vera marktækur gagnrýnandi en hér koma nú samt hugleiðingar mínar um þessa merkilegu sögu:

Sigurðar saga fóts
Morguninn eftir að spilaborgin féll, bankar lögreglan upp á hjá stjórnarformanni stærsta hrunbankans. Þetta þarf kannski ekki endilega að koma á óvart. En erindið er þó ekki að setja manninn í járn, heldur að bjóða honum vernd og öruggt skjól fyrir reiðum almenningi.

Svona grátlega – eða hlálega – vitlaus er íslenskur raunveruleiki. Í þessari nýju bók sinni setur Bjarni Harðarson grátlegan raunveruleika síðasta áratugar í búning fáránleikafarsa, sem stundum verður svo hlálegur, að lesandinn gæti haldið að hann væri staddur í miðri bók eftir þann ágæta meistara skopsögunnar P. G. Wodehouse.

Rétt eins og hjá Wodehouse hafa persónur þessarar skáldsögu fæstar fleiri heilafrumur en svo, að þær dugi til að gera hvort tveggja í senn: halda jafnvæginu á göngu og tyggja tyggjó. En þar endar líka samanburðurinn. Wodehouse smíðar sitt leiksvið án nokkurs jarðsambands, en persónur Bjarna ferðast um íslenska raunheima.

Heiti bókarinnar er sótt í gamla lygasögu, riddarasöguna Sigurðar sögu fóts. Í þeirri sögu segir meðal annars af bardögum þar sem fjölmennir herir eru stráfelldir í heilu lagi, en konungarnir lifa eftir og lifa hátt. Í þeirri sögu er engin tilraun gerð til að vekja samúð lesandans með þúsundum fallinna hermanna og fyrirvinnulausum fjölskyldum þeirra.

Bjarni er trúr þessari fyrirmynd sinni að því leyti, að tæpast er nokkurs staðar vikið að fórnarlömbum þeirra guðsvoluðu vitleysinga sem tókst að leggja hálfan heiminn í rúst með axarsköftum sínum, þótt lesi megi milli línanna á stöku stað að réttlætiskennd höfundarins sé talsvert ofboðið.

Fjölmargar persónur eru auðþekktar úr raunveruleikanum, en einkennum þeirra er hrært svo listilega saman að það verður öllu fremur heildin en einstaklingarnir sem er svo auðþekkjanleg.

Í þessari sögu á enginn auðkýfinganna neitt í upphafi nema skuldir og enginn eignast heldur neitt nema verðlausa pappíra og enn meiri skuldir sem velt er hring eftir hring og vaxa í sömu hlutföllum og snjóbolti. Í raunveruleikanum var þetta auðvitað ekki einungis grátlegt, heldur glæpsamlegt, en verður á köflum drepfyndið í meðförum Bjarna. Með því að gera persónur sínar svona heimskar og fákænar, tekst honum eiginlega líka að sannfæra lesandann um að í rauninni hafi hrunið aldrei verið neinum að kenna. Það er líka kunnugleg hugmyndafræði úr raunveruleikanum.

Einna helst eru það eiginkonur og mæður söguhetjanna sem luma á dálitlu af heilbrigðri skynsemi. En þær eru að sama skapi áhrifalausar. Að þeim frátöldum kemst Sigurður fótur sjálfur næst því að skilja að ævintýrinu hlýtur að ljúka og því getur ekki lokið nema á einn veg. En hann á aldrei neinna kosta völ. Það skiptir engu máli hvaða leið hann velur, allar liggja þær fyrr eða síðar fram af hengifluginu.

Sagt er að sumt sé þyngra en tárum taki. Og þegar svo stendur á, liggur kannski beinast við að gera stólpagrín að öllu saman. Í þessari skáldsögu má segja að Bjarna Harðarsyni hafi tekist það ágætlega.












X
Hafðu samband

Mitt nafn


Mitt netfang


Fyrirspurn




Talan í myndinni hér að ofan er





X
Senda


Nauðsynlegt er að fylla út reiti með feitletruðum titli.
Netfang móttakanda


Mitt nafn


Mitt netfang


Athugasemd / efni:





X
Fréttabréf

Nafn


Netfang




Fréttabréf í boði

Engin fréttabréf í boði.






Talan í myndinni hér að ofan er






X



Nauðsynlegt er að fylla út reiti með feitletruðum titli.
Nafn


Netfang


Blogg / Vefsíða


Athugasemd



Talan í myndinni hér að ofan er




Skrá athugasemd